Kaupfélag Eyfirðinga (KEA) hefur fest kaup á eignasafni íbúðafélagsins Íveru (áður Heimstaden) á Akureyri. Um er að ræða um 120 íbúðir og er kaupverð þeirra liðlega 5 milljarðar króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íveru.

Í tilkynningu segir að Ívera áformi að tvöfalda eignasafn sitt, sem nú telur um 1.600 íbúðir. Sala eigna á Akureyri sé liður í endurskipulagningu.

Þá kemur enn fremur fram í tilkynningunni að stefnt sé að því að viðskiptin hafi ekki neikvæð áhrif á núverandi leigutaka. KEA stefnir á að reka íbúðirnar til langs tíma.

Viðskiptin marka brotthvarf Íveru af íbúðamarkaði á Akureyri, en félagið stefnir ekki á frekari umsvif þar í náinni framtíð.

Stefnt er að því að afhenda eignirnar fyrir jól.