Lögreglan í Suður-Kóreu sagði í gær að öryggisverðir forsetans Yoons Suk-yeols hefðu komið í veg fyrir rassíu á skrifstofu forsetans, en lögreglan rannsakar nú tilraun Yoons til þess að setja á herlög í landinu.
Yoon er nú undir farbanni vegna rannsóknarinnar, en saksóknarar og lögregla segja að Yoon sé grunaður um uppreisn gegn ríkinu. Fór lögreglan inn í forsetahöllina í gær til að leita að gögnum um þátt forsetans í því að setja herlög, og náðu þeir að leita í almennu skrifstofurými en ekki einkaskrifstofu forsetans. Átti lögreglan í viðræðum í gær við öryggisþjónustu forsetans um framhaldið.
Kim Yong-hyun, fyrrverandi varnarmálaráðherra landsins, var handtekinn fyrir sinn þátt í uppreisninni á þriðjudaginn. Sögðu fangelsismálayfirvöld að Kim hefði reynt að fyrirfara sér áður en hann var handtekinn.