Slökkviliðsflugvél sést hér varpa eldvarnarvökva yfir gróður í nágrenni Malibú-borgar í Kaliforníu-ríki, en þar hefur mikill gróðureldur geisað síðustu daga.
Áætlað er að eldurinn hafi brennt um 3.000 ekrur, eða rúmlega 1.214 hektara lands. Þá er vitað að minnst sjö heimili hafa brunnið til kaldra kola vegna brunans og um 20.000 manns hafa fengið skipun um að flýja heimili sín í borginni.
Malibú-borg er rétt vestan við Los Angeles, og er hún vinsæl meðal kvikmyndaleikara í Hollywood. Var óttast að fjölmörg heimili, sem metin eru á milljónir bandaríkjadala, gætu orðið eldinum að bráð.
Um 1.500 slökkviliðsmenn taka nú þátt í aðgerðum gegn eldinum og beita þeir ýmsum ráðum við erfiðar aðstæður.