Sigurður Hlíðar Brynjólfsson fæddist í Hörgshlíð í Mjóafirði við Ísafjarðardjúp 1. maí 1936. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi 4. desember 2024.
Foreldrar hans voru Guðný Kristín Halldórsdóttir, f. 16. september 1910, d. 8. febrúar 1991, og Brynjólfur Ágúst Albertsson, f. 10. ágúst 1902, d. 14. júní 1987.
Systkini Sigurðar voru Halldór Albert, f. 1932, d. 2013, Sigríður Guðmunda, f. 1931, d. 2009, Sesselja Guðrún, f. 1934, d. 1956, og Sævar, f. 1942, d. 2019. Uppeldisbróðir þeirra var sonur Sesselju Guðrúnar, Brynjólfur Garðarsson, f. 1955.
Eftirlifandi eiginkona Sigurðar er Herdís Jónsdóttir, f. 29. maí 1937. Herdís og Sigurður giftust 15. júní 1957. Foreldrar hennar voru Lára Sigmunda Þórhannesdóttir, f. 1897, d. 1978, og Helgi Jónsson, f. 1896, d. 1974, bændur í Hvítanesi og síðar á Blönduholti í Kjós.
Börn Sigurðar og Herdísar eru: 1) Jón, f. 9. september 1956, d. 29. október 2015, hans börn eru Hrefna Ingibjörg og Haukur Hlíðar. 2) Lára Dís, f. 13. febrúar 1961, sambýlismaður hennar er Sigurður Jóhannesson. Lára Dís á tvö börn, Salome og Sigurð Hlíðar, með Rúnari Kolbeini Óskarssyni, f. 25. júlí 1957, d. 4. september 2003. 3) Guðný, f. 9. september 1962. Hún er gift Hreini Bjarnasyni og eru dætur þeirra þær Herdís Ýr, Vigdís Ylfa og Bryndís Hanna, barnabarnabörnin eru tólf talsins.
Herdís og Sigurður bjuggu á Hólabraut 10 í Keflavík frá árunum 1957 til 1980. Þá fluttu þau til Bíldudals og var þá Sigurður skipstjóri á togaranum Sölva Bjarnasyni BA-65 til ársins 1992. Árið 2019 fluttu Herdís og Sigurður til Hveragerðis.
Sigurður ólst upp á Ísafirði til fjórtán ára aldurs en þá flutti fjölskylda hans suður til Keflavíkur. Sigurður stundaði sjómennsku frá unga aldri og varð hann skipstjóri eftir útskrift frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1956. Sigurður starfaði mestan hluta sem skipstjóri bæði á eigin bátum, trillum og á skuttogurum hjá nokkrum útgerðum. Sigurður hætti síðan útgerð árið 2018, þá áttatíu og eins árs, en undir lokin leysti hann af í nokkur ár á Núpnum BA sem stýrimaður.
Hann varði mestum tíma ævi sinnar í að sigla um höfin sjö.
Útför Sigurðar fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 12. desember 2024, klukkan 13.00.
Það er gott að þú fékkst hvíldina fyrst svona var komið. Ég vann í lífslottóinu með að fá að vera samferða þér í rúm 63 ár og ég veit að þú ert ekkert farinn þó þú sért á öðrum og vonandi betri stað núna. Það er svo margt að minnast æskuáranna í Keflavík, allar útilegurnar í hjólhýsinu á brúna Broncoinum með Roger Whittaker í teipinu. Fjallgöngur, sundferðir og helst að synda í öllum vötnum, lækjum og ám sem á leið okkar var, a.m.k. vaða yfir. Á þessum árum fylgdi tíkin Dollý þér allt hvort sem var í fríum eða á sjóinn, þú varst mikill og góður dýravinur. Gafst krummunum á Bíldudal, smáfuglunum í Hveragerði. Elskaðir hundana hennar Láru.
Þið mamma fluttuð á Bíldudal 1980 þegar þú varst ráðinn á skuttogarann Sölva Bjarnason BA-65, þar byggðu þið ykkur sælureit á Sælundi 3, fluttuð inn norskt timburhús sem þið staðsettuð við sjóinn og þar unduð þið ykkar hag vel í rúma þrjá áratugi. Þar var gestkvæmt hjá ykkur og barnabörnin nutu umhyggju og ástar ykkar, húsið var ávallt opið og alltaf var nóg matur fyrir alla hvort sem var í hádegi eða kvöldmat og sóttu dætur mínar mikið í að vera hjá ömmu og afa. Þar var alltaf kátt á hjalla, takk fyrir umhyggjuna alla tíð.
Á Bíldudal er mikil veðurblíða á sumrin og byggðuð þið skemmtilegan pall við húsið og oftar en ekki var borðað úti, fékk pallurinn viðurnefnið heitasti reitur landsins. Þið voruð miklir sóldýrkendur og nutu þess að vera með þetta fallega útsýni við sjóinn. Á lóðarmörkum rann lækur sem barnabörnin sóttu mikið í og stundum datt einhver í lækinn og varð mikið kalt, það fannst þér skemmtilegt. Á veturna fóruð þið oftast til Flórída í sólina og nútuð þess í góðan áratug.
Þegar erfiðleikar steðjuðu að togaraútgerðinni keyptir þú smábáta sem þú nefndir eftir togaranum Sölva, fyrst Cleopatra og síðar Færeyingur, sem þú gerðir út frá Bíldudal. Sjórinn var þér allt. Þú varst fiskinn og ósérhlífinn. Þú varst orðinn 80 ára þegar þú hættir eigin útgerð en hélst áfram að leysa af á Núpnum BA, Patreksfirði í nokkur ár og hafðir gaman af.
Eftir að þú hættir að róa fannst þér erfitt að vera við sjóinn og þið mamma keyptuð ykkur raðhús í Hveragerði, við Heilsustofnun Náttúrulækningafélagsins og unduð ykkur vel þar. Nú var komið að öðrum kafla í lífinu þú helltir þér á fullt það sem boðið var upp á á NFLÍ og yngdist um mörg ár. Fórst að stunda kraftgöngur af miklum móð og allt skrá í Garmin-úrið þitt. Settir þér ýmis óraunhæf markmið með kílómetrafjölda á mánuði, sem alltaf náðust svo. Þú þekktir nærumhverfið í Hveragerði vel og fórst um allt alveg sama hvernig veður var. Ég lagði mig fram við að sjá til þess að þú værir í viðeigandi útivistarklæðnaði og varstu þakklátur fyrir það. Eftir að þú hættir á sjó tókst þú heimilið yfir og sást um eldhúsið sem mamma hafði séð um fram það þessu þar sem þú varst á sjó. Þú varst hinn besti kokkur og hafðir gaman af og allt svo hreint og fínt hjá ykkur.
Sóldýrkendurnir útbjuggu sér nýjan sælureit á nýjum stað og reistuð sólskála við húsið í Hveragerði, þar nutuð þið að vera með gesti og gangandi. Missir mömmu er mikill þar sem þú dekraðir við hana og hún mátti ekki gera neitt af því þú varst kominn heim. Svona varstu fórst alla leið í því sem þú tókst þér fyrir hendur. Eitt af því sem við áttum sameiginlegt var að þrasa við hvort annað aðallega í að vera ekki sammála þó við e.t.v. værum það, við hvern á ég nú að þrasa pabbi minn? Ég held ég þrasi bara áfram við þig, þá hef ég ef til vill einhvern tímann betur.
Elsku pabbi, tengdapabbi, afi og langafi takk fyrir allt þú varst góður, skemmtilegur og mikil fyrirmynd, hörku duglegur, ósérhlífinn og fallegur maður. Takk fyrir hvatninguna og hugulsemina, það var ómetanlegt hvað þú varst alltaf til staðar ef eitthvað bjátaði á.
Vitum að þú hefur fengið góðar viðtökur í sumarlandinu frá foreldrum, systkinum, Nonna, Rúnari og fleiri góðum félögum. Það eitt er víst að þú átt fullt af góðum félögum.
Aðstandendur vilja koma þökkum til starfsfólks Heilbrigðisstofnunar á Selfossi fyrir alúðlega og faglega umönnun Sigurðar sl. mánuð.
Kveðja í bili þín dóttir,
Guðný Sig og fjölskylda.