HK vann mikilvægan sigur á Fjölni, 30:23, í fallbaráttuslag í 14. umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik í Kórnum í gærkvöldi. Með sigrinum fór HK úr 10. sæti og upp í 9. sæti þar sem liðið er með tíu stig. Fjölnir vermir enn botninn með sex stig.
Leó Snær Pétursson var markahæstur í leiknum með átta mörk fyrir HK. Jovan Kukobat varði 14 skot í markinu og var með 38 prósent markvörslu. Spilandi þjálfarinn Gunnar Steinn Jónsson var markahæstur hjá Fjölni með sjö mörk.
Haukar gerðu þá góða ferð í Skógarsel og unnu stórsigur á nýliðum ÍR, 43:27. Haukar fóru með sigrinum upp í 3. sæti þar sem liðið er með 18 stig. ÍR er áfram í 11. og næstneðsta sæti með átta stig.
Hergeir Grímsson átti stórleik fyrir Hauka og skoraði tíu mörk ásamt því að gefa fjórar stoðsendingar. Markahæstur í leiknum var hinn 17 ára gamli Baldur Fritz Bjarnason með 13 mörk fyrir ÍR.