Eignastýring Kviku banka gaf út mánaðarlegt rit sitt um horfur á mörkuðum í vikunni.

Þar kemur fram að miklar hreyfingar hafi verið á skuldabréfamarkaði undanfarnar vikur sem einkum hafi litast af viðskiptum erlendra aðila.

Nefnir bankinn að fyrst hafi það verið kaup í aðdraganda vaxtaákvörðunar og svo sala í kjölfarið. Krafan á ríkisskuldabréfum hafi hækkað um 15-30 punkta frá vaxtalækkuninni nú í nóvember.

Markaðurinn er nú að verðleggja inn um 150 punkta lækkun á næsta ári en Kvika bendir á að svigrúmið verði líklega enn meira.

Bankinn telur að líklega myndist svigrúm til 175-200 punkta vaxtalækkana á árinu 2025 enda muni verðbólga hjaðna töluvert á árinu.