Borgarbókasafnið býður upp á aðventuupplestra á söfnum sínum, með mismunandi þema um helgina. Þrír höfundar lesa upp á hverjum stað og boðið er upp á heitt kakó eða heita súpu, eftir því hvort lesið er upp í hádeginu eða síðdegis. Viðburðirnir eru ókeypis og öllum opnir. Á Borgarbókasafninu í Gerðubergi laugardaginn 14. desember kl. 14 lesa upp úr skáldsögum sínum, þar sem vinátta er í forgrunni, Tómas Ævar Ólafsson úr Breiðþotum, Brynja Hjálmsdóttir úr Friðsemd og Jónas Reynir Gunnarsson úr Múffu. Boðið verður upp á heitt kakó. Á Borgarbókasafninu í Grófinni sunnudaginn 15. desember kl. 12 lesa upp úr skáldsögum sínum, þar sem samtíminn er til skoðunar, Sunna Dís Másdóttir úr Kuli, Þórdís Gísladóttir úr Aðlögun og Halldór Armand Ásgeirsson úr Mikilvægu rusli. Boðið verður upp á heita súpu og brauð.