Fram hafði betur gegn Gróttu, 38:33, í 14. umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik í Úlfarsárdal í gærkvöldi. Með sigrinum fór Fram upp í þriðja sætið þar sem liðið er með 19 stig, jafnmörg og Afturelding sæti ofar. Grótta er enn í áttunda sæti með tíu stig.
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson fór hamförum hjá Fram og skoraði 11 mörk. Reynir Þór Stefánsson átti sömuleiðis stórleik en hann skoraði níu mörk og gaf átta stoðsendingar. Breki Hrafn Árnason varði 11 skot í marki Framara.
Jón Ómar Gíslason var markahæstur hjá Gróttu með tíu mörk.
Valur hafði þá betur gegn Stjörnunni, 40:34, í 74 marka leik á Hlíðarenda. Með sigrinum fór Valur upp fyrir Hauka og er nú í fjórða sæti með 18 stig líkt og Hafnarfjarðarliðið. Stjarnan er áfram í sjötta sæti með 13 stig.
Markahæstir í leiknum voru Magnús Óli Magnússon og Agnar Smári Jónsson með átta mörk hvor fyrir Val. Hans Jörgen Ólafsson var markahæstur hjá Stjörnunni með sex mörk.