Jón Guðmundsson fæddist 20. apríl árið 1942. Hann lést 17. nóvember 2024.
Útför Jóns fór fram 10. desember 2024.
Fyrir langalöngu, þegar grasið var grænna og fuglarnir sungu hærra, bar fundum okkar Jóns Guðmundssonar saman í gleðskap vaskra unglinga á Norðfirði. Þar stóð hann staffírugur upp úr hópnum, hávaxinn sem hann var, og dró að sér athyglina – hrókur alls fagnaðar. Jón var borinn og barnfæddur í Neskaupstað í skjóli tignarlegra fjalla. Hann ólst upp í því athafnasama umhverfi, mat það mikils alla tíð og hugsaði afar hlýtt til æskustöðvanna allt til æviloka. Það fór aldrei á milli mála í öllum samtölum, því Norðfjörð bar ávallt á góma og jafnan fylgdu margar sögur hverju sinni um staðhætti, menn og málefni. Samtölin gátu því á stundum orðið býsna löng og oft mátti hafa sig allan við að koma ætluðu umræðuefni að.
...