Myndir hans segja oft sögu og hann skrifaði iðulega eitthvað á þær. Margar þeirra merkti hann með nafni sínu og ártali.
Æskuteikningar er yfirskrift sýningar í Gallerí Fold. Þetta er sölusýning á æskuverkum Alfreðs Flóka (1938-1987).
Fjölskylda Alfreðs Flóka varðveitti teikningarnar í kössum og magnið er gríðarlegt. Heildstæðustu verkin, um 40, eru til sölu og barnateikningar hans eru til sýnis í möppum sem gestir geta flett. Á sýningunni er skrifborð Flóka og kertastjakar sem voru í hans eigu og stóðu á skrifborðinu.
Iðunn Vignisdóttir er sýningarstjóri sýningarinnar. Hún segir merkilegt hversu mikið af æskuverkum Flóka hafi varðveist. „Afköstin voru gríðarleg og það var sennilega móðir hans sem geymdi teikningarnar. Þær hafa varðveist mjög vel og eru heilar. Þessi sýning ætti að vera fengur fyrir alla aðdáendur Alfreðs Flóka.“