Jólalistaverkamarkaður verður haldinn í Listasal Mosfellsbæjar til og með 20. desember. Yfir 50 listamenn taka þátt. Í tilkynningu segir að markaðurinn komi í framhaldi af samþykkt menningar- og lýðræðisnefndar bæjarins um að síðasta sýning ársins yrði að þessu sinni listaverkamarkaður í stað hefðbundinnar sýningar. Hugmyndin kom frá íbúa, þótti áhugaverð og til þess fallin að styðja við listafólk í bænum.
„Á sýningunni má finna fjölbreytt verk, allt frá litlum vatnslitamyndum, textílverkum, málverkum til lampa. Gert er ráð fyrir að sýningin taki breytingum meðan á henni stendur, þegar verkin á veggjunum fá nýja eigendur og önnur koma í þeirra stað,“ segir jafnframt í tilkynningu. Opið verður alla virka daga kl. 9-18 og kl. 12-16 á laugardögum. Í dag, 14. desember, er boðið upp á listamannaspjall milli kl. 14 og 15.30.