Jólatónleikar Sinfóníunnar verða haldnir í fjórgang um helgina í Eldborg, í dag og á morgun, kl. 14 og kl. 16. Þar verða flutt sígild jólalög og töfrandi tónlistarævintýri, að því er segir í tilkynningu. Einsöngvararnir Ragnheiður Gröndal, Benedikt Kristjánsson, Matthildur G. Hafliðadóttir og Kolbrún Völkudóttir koma fram með hljómsveitinni en auk þeirra stíga á svið Stúlknakór Reykjavíkur, Kammerkórinn Aurora, dansarar úr Listdansskóla Íslands, Langspilssveit Flóaskóla og bjöllukórar úr Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Tónstofu Valgerðar. Kynnir er trúðurinn Barbara og hljómsveitarstjóri er Hjörtur Páll Eggertsson.