Einar Gíslason fæddist 29. apríl 1946. Hann lést 24. nóvember 2024.

Útför Einars fór fram 10. desember 2024.

Kæri Einar mágur minn og vinur til næstum 60 ára hefur nú kvatt þessa jarðvist. Ég kynntist Einari ung að árum á Bergstaðastrætinu í Reykjavík þegar ég fór að venja komur mínar til Ragnars bróður hans.

Og einhvern veginn höfum við fjölskyldur þeirra bræðra alltaf fylgst að og búið í nálægð.

Einar var elstur bræðra sinna Ragnars, Jóns Otta og Gísla Þórs sem allir eru látnir. Einar tók hlutverk sitt sem elsti bróðir alvarlega, var ábyrgur, verndandi og auðvitað dálítið stjórnsamur. Að sama skapi var hann hjálpsamur og góður vinur. Allir sem þekktu Einar vita að hann var mjög kappsamur og mikill íþróttamaður á sínum yngri árum með mikinn þrótt og þrek.

...