Hjörtur Harðarson fæddist á Seyðisfirði 23. október 1955. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Fossahlíð á Seyðisfirði 28. nóvember 2024.
Foreldrar hans voru Hörður Hjartarson, framkvæmdastjóri, f. 11.11. 1927, d. 22.9. 2014, og Sigfríð Hallgrímsdóttir, húsfreyja, f. 14.6. 1927, d. 1.2. 2021. Systkini Hjartar eru Inga Þórarinsdóttir, f. 14.11. 1946, d. 1.12. 2022, Bjarndís Harðardóttir, f. 16.11. 1948, d. 10.12. 2021, Valur Harðarson, f. 11.3. 1954, d. 24.10. 2018, Hallgrímur Harðarson, f. 4.7. 1958, og Helena Harðardóttir, f. 19.4. 1964.


Eftirlifandi eiginkona Hjartar er Mimie Fríða Libongcogon frá Filippseyjum, f. 2.6. 1962. Þau giftu sig 5.6. 1992. Börn þeirra eru María Elisabeth, f. 31.3. 1993, og Hörður, f. 9.2. 1996. Fyrir átti Hjörtur soninn Guðmund, f. 31.10. 1973 með Katrínu Guðmundsdóttur. Eiginkona Guðmundar er Sigrún Huld Pálmarsdóttir, f. 25.1. 1975. Börn þeirra eru Eiður Smári, f. 13.2. 1999, Auðunn Ari, f. 4.6. 2007, og Eyrún Saldís, f. 13.10. 2009.


Hjörtur ólst upp á Seyðisfirði og átti þar heima allt sitt líf. Hann byrjaði snemma að vinna eins og títt var um börn á þeim tíma, fyrst á síldarplani og seinna meir í frystihúsinu. Nokkur ár vann hann hjá Vélsmiðju Seyðisfjarðar og hjá Fiskvinnslunni á Seyðisfirði, en lengst af vann hann hjá Skeljungi við afgreiðslu olíu til skipa og báta, ásamt rekstri Shell-sjoppunnar með föður sínum, en þeir feðgar voru samstarfsmenn í hartnær 25 ár.

Hjörtur og Mimie bjuggu lengst af sínum búskap á Túngötu 14 Seyðisfirði ásamt börnum þeirra tveimur.


Útför Hjartar fer fram frá Seyðisfjarðarkirkju í dag, 14. desember 2024, klukkan 13.

Streymt verður frá athöfninni.

Hlekk á streymi má finna á
egilsstadaprestakall.com.

Hann var fæddur og uppalinn Seyðfirðingur og fór því með heimamönnum í gegnum margar breytingar og sveiflur, þ.e. félags-, atvinnu- og afkomulega, sem einkennt hefur þennan fallega fjörð og íbúa hans síðustu áratugina. Hann ólst upp á Túngötunni í faðmi foreldra, Harðar og Sigfríðar (Fríðu), í hópi fimm systkina: Bjarndísar, Vals, Hjartar, Hallgríms og Helenu. Með burtkalli hans nú eru þau þrjú elstu farin brott af móður jörð. Blessuð sé minning þeirra.

Við sem vorum virkir og stunduðum og studdum íþróttafélagið okkar, Hugin, og síðar golfklúbbinn okkar á Hagavelli ásamt þátttöku í fleiri félagslegum verkefnum, kynntumst vel hans mörgu góðu kostum; trausti, einlægni, góðum húmor, minni, stríðni og hjálpsemi. Hann var sannur vinur vina sinna. Ungur var hann á skíðum á veturna eins og flest börn á Seyðisfirði í þá daga, þátttakandi í fótbolta, handbolta og blaki og fleiri íþróttum. Þótt ekki þvældust fyrir honum stórafrekin í medalíum var hann oftast til staðar og studdi sína félaga af einlægni og festu. Hann var sérfræðingur og sérstakur áhugamaður um enska knattspyrnu alveg fram á síðasta dag. Fáir ef nokkrir fóru þar í hans spor. Hann fylgdist vel með af mikilli ástríðu, las sér til, horfði á og ræddi um enska boltann í tíma og ótíma. Margur spekingurinn klóraði sér rækilega í höfðinu eftir að hafa lent í klónum á honum. Kunnugir segja að hann hafi lengi vel verið Leeds-maður en villtist af leið og varð trúaður og innmúraður MUN-maður.

Um tíma fjallaði hann um enska boltann fyrir fréttamiðla sem skemmtilegt var að lesa og fylgjast með. Hann var í Hugin-tipparafélaginu og þar gat þekking hans á enska boltanum komið að góðum notum, en rakst þá gjarnan á aðra sem vildu vita betur og því fór oft þannig að seðillinn gaf á endanum lítið. Sagt var að það hefði verið skemmtilegt að vera fluga á vegg og hlusta á þá félaga þegar umræðan fór á efsta og oft hæsta stig í þessum pælingum þeirra.

Þótt ekki stundaði hann golfíþróttina var hann alla tíð stuðningsmaður mikill GSF og á golfmótum hafði hann fast verk að vinna. Hann tók á móti og sá um að skráðir þátttakendur greiddu skilvíslega sín þáttökugjöld. Hann var tíður gestur í golfskálanum nú hin síðari ár þar sem oft mátti heyra fjörugar umræður. Ekki skemmdi fyrir þegar hann mætti og tók einstaka félagsmann á beinið og vildi siða hann svolítið til. Allt gert með hans ljúfu, hæglátu hæðni sem við allir kunnum svo vel að meta.

Faðir hans Hörður Hjartarson rak m.a. verslun/sjoppu fyrir Skeljung á Öldunni og hafði í sinni umsjá olíubifreið félagsins. Hann sá um akstur til viðskiptavina í landi og í skip. Hjörtur fór ungur að hjálpa pabba sínum og tók við rekstrinum þegar foreldrar hans fluttu suður. Við það starfaði hann þar til félagið lagði niður starfsemi. Síðustu árin barðist hann hetjulegri baráttu við mikinn vágest sem loks lagði þennan góða dreng að velli alltof snemma. Síðustu dagana lá hann hér á hjúkrunarheimilinu Fossahlíð í góðri umsjá starfsfólks. Kona hans, sem er hjúkrunarfræðingur, vinnur á Fossahlíð. Traustur vinur hans og félagi okkar í GSF, Sigurður O.S., var mikill stuðningur fyrir fjölskylduna í veikindum hans nú síðustu árin. Fyrir það erum við félagar hans þakklátir. Ég heimsótti hann á Fossahlíð og þó að vitað væri að tíminn styttist mætti hann mér glettinn og við ræddum þá sérstaklega um félaga okkar í golfskálanum. Þá átti ég gjarnan að fara með skilaboð frá honum til ákveðins félaga og koma svo til að segja honum hvernig félaginn brást við skilaboðunum. Því miður verða þessar skilaboðaferðir okkar á milli ekki fleiri.

Nú þegar Hjörtur félagi er frá okkur kallaður til annarra góðra verka þökkum við með söknuði fyrir samveruna. Við trúum því að fyrir hitti hann foreldra sína og systkini. Við biðjum fyrir kveðjur.

Ættingjum og vinum, eiginkonunni Mimie Fríðu og börnunum Maríu og Herði vottum við innilega samúð með þakklæti fyrir góðan vin, eiginmann og föður.

Megi góður guð styrkja ykkur í sorginni.

Þorvaldur Jóhannsson.