Njarðvík hafði betur gegn Keflavík, 98:88, í Suðurnesjaslag í 11. umferð úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik í Njarðvík í gærkvöldi. Með sigrinum tyllti Njarðvík sér á topp deildarinnar þar sem liðið er með 16 stig eins og Haukar sæti neðar. Keflavík er í þriðja sæti með 14 stig.
Jafnræði var með liðunum lengst af áður en Njarðvík tókst að slíta sig frá nágrönnunum í fjórða leikhluta.
Brittany Dinkins fór hamförum í liði Njarðvíkur er hún skoraði 41 stig, tók sjö fráköst, gaf fimm stoðsendingar og stal tveimur boltum. Bo Guttormsdóttir-Frost bætti við 18 stigum. Emilie Hesseldal var þá með 18 fráköst, sjö stoðsendingar og fimm stolna bolta.
Í liði Keflavíkur fór Jasmine Dickey á kostum. Skoraði hún 38 stig, tók 11 fráköst og stal tveimur boltum. Sara Rún Hinriksdóttir bætti við 20 stigum og varði auk þess tvö skot.