Þegar Óskarsverðlaunin verða afhent í 97. sinn á nýju ári verða þau í fyrsta sinn í sögu verðlaunanna send út í beinu streymi. Þessu greindi Variety nýverið frá. Þar kemur fram að verðlaunaafhendingin verður sýnd á sjónvarpsstöðinni ABC og samtímis…
Óskarsverðlaunastyttan
Óskarsverðlaunastyttan

Þegar Óskarsverðlaunin verða afhent í 97. sinn á nýju ári verða þau í fyrsta sinn í sögu verðlaunanna send út í beinu streymi. Þessu greindi Variety nýverið frá. Þar kemur fram að verðlaunaafhendingin verður sýnd á sjónvarpsstöðinni ABC og samtímis streymt beint á Hulu. Samkvæmt sameiginlegri tilkynningu sem forsvarsmenn Bandarísku kvikmyndaakademíunnar og ABC sendu frá sér er markmiðið með þessu að auka aðgengi almennings að verðlaunaafhendingunni.

Kynnir kvöldsins verður Emmy-verðlaunahafinn og grínistinn Conan O’Brien, en þetta verður í fyrsta sinn sem hann stýrir umræddri verðlaunaútsendingu. Um dagskrárstjórn og framleiðslu sjá Raj Kapoor, Katy Mullan og Hamish Hamilton, en sá síðastnefndi hefur getið sér mjög gott orð sem leikstjóri og stýrði m.a. atriði Beyoncé í hálfleik Ofurskálarinnar í fyrra.