Indverski tónlistarmaðurinn og Grammy-verðlaunahafinn Zakir Hussain er látinn, 73 ára að aldri, eftir langvarandi baráttu við krónískan lungnasjúkdóm. ­Hussain þótti snillingur á hljóðfæri sem nefnist tabla, en um er að ræða trommusett með tveimur…
Tabla Zakir Hussain við trommurnar.
Tabla Zakir Hussain við trommurnar. — AFP/Manjunath Kiran

Indverski tónlistarmaðurinn og Grammy-verðlaunahafinn Zakir Hussain er látinn, 73 ára að aldri, eftir langvarandi baráttu við krónískan lungnasjúkdóm. ­Hussain þótti snillingur á hljóðfæri sem nefnist tabla, en um er að ræða trommusett með tveimur trommum sem áður fyrr voru búnar til úr leir en á seinni tímum úr málmi og er leikið á trommurnar sitjandi á gólfinu.

„Afkastamikið starf hans sem kennari og lærifaðir hefur haft varanleg áhrif á óteljandi tónlistamenn. Hann vonaðist til þess að veita næstu kynslóð innblástur til að leita lengra. Hann skilur eftir sig óviðjafnanlega arfleifð sem sendiherra menningar og einn stórkostlegasti tónlistarmaður allra tíma,“ segir í yfirlýsingu frá fjölskyldu hans þar sem hún staðfestir andlát hans.

Samkvæmt frétt Variety hlaut Hussain fern Grammy-verðlaun á ferlinum í flokki heimstónlistar. Þau fyrstu fékk hann 2009 og þau síðustu 2024.