Andrés Magnússon
Netflix ýtti að mér Black Doves, sem eru breskir njósnaþættir með hæfilegu jólaívafi fyrir aðventuna. Prýðisþættir úr smiðju Joes Bartons (Lazarus Project og Giri/Haji) til að poppa og horfa á kvöld eftir kvöld eða allt í einum rykk.
Plottið er að vísu bara svona og svona og persónurnar mistrúverðugar, en þetta er ákaflega vel gert; fín blanda af spennu, tilfinningaróti efri miðstéttar Lundúna, skotbardögum og skoplétti þess á milli. Fyrirtaks skemmtun alveg.
Fyrst og fremst er þáttaröðin þó borin uppi af frábærum leikurum á borð við Ben Whishaw, Sarah Lancashire og Kathryn Hunter, sem leika of eða van eftir þörfum; jafnvel smæstu hlutverk eru skipuð framúrskarandi fólki. Það er þó sérstaklega gaman að vera minntur á að Keira Knightley er leikkona í fremstu röð (eins og sást vel
...