Skáldsaga Móðurást: Draumþing ★★★★★ Eftir Kristínu Ómarsdóttur Mál og menning, 2024. Innb., 166 bls.
Bækur
Snædís Björnsdóttir
Það kemur fyrir að ég tárist eilítið yfir bók. Það er stundum erfitt að útskýra nákvæmlega af hverju það er – það kann að vera eitthvað órætt, einhver tilfinning eða óljós hughrif sem bókin miðlar. Það er einfaldlega eitthvað sem hittir í hjartastað.
Þetta á við um bókina Móðurást: Draumþing eftir Kristínu Ómarsdóttur. Yfir henni táraðist ég nokkrum sinnum, ekki síst vegna þess að hún er ævintýralega falleg.
Bókin er annað bindið í skáldaðri sögu höfundar um langömmu sína Oddnýju Þorleifs- og Þuríðardóttur á ofanverðri nítjándu öld. Fyrir fyrsta bindi sögunnar, Móðurást: Oddný, hlaut Kristín Fjöruverðlaunin 2024.