Bragi Straumfjörð Jósepsson fæddist í Stykkishólmi 6. febrúar 1930. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Brákarhlíð 11. desember 2024.
Foreldrar hans voru Jósep Ingvar Jakobsson, f. 1905, d. 1942, og Jóhanna Bjarnrós Bjarnadóttir, f. 1907, d. 1943. Fósturfaðir sr. Sigurður Ó. Lárusson, f. 1892, d. 1978, fósturmóðir Ingigerður Ágústsdóttir, f. 1893, d. 1975. Samfeðra er Hulda Jósepsdóttir, f. 1930. Sammæðra eru Eyjólfur Guðmundsson, f. 1937, d. 2014, og Gunnar Guðmundsson, f. 1940.
Hann giftist Dóróte Oddsdóttur, f. 1934, og átti með henni tvö börn en þau skildu, sonur þeirra var Oddur, f. 1953, dóttir var Ingigerður Saga, f. 1960. Síðar giftist hann Gretu Freydísi Kaldalóns, f. 1947, og átti með henni þrjú börn en þau skildu. Börn þeirra eru: Logi, f. 1975, Sigurður Óskar Lárus, f. 1977, og Bragi Kormákur, f. 1981.

Útför hans fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 19. desember 2024, klukkan 15.

Fyrstu minningar mínar af pabba voru af honum sitjandi við skrifborðið sitt í Skipasundi. Borðið var fullt af blaðastöflum og bókum. Á veggnum á móti honum var stór bókahilla sem fyllti allan vegginn alveg upp í loft. Pabbi hafði dálæti af því að lesa bækur en líka að safna þeim. Hann skrifaði nafnið sitt inn í hverja bók sem hann fékk eða stimplaði nafnið með stimpli sem hann hafði látið búa til fyrir sig. Mamma segir að þegar ég var lítill þá hafi ég stungið höndinni bak við bækurnar í næst neðstu hillunni og rutt þeim út á gólf. Væntanlega til þess að gera pláss fyrir bílana mína og önnur leikföng. Ég efast um að hann hafi eitthvað verið að skamma mig fyrir þetta, enda var hann ekki mikið að því.

Við vorum svolítið í sitt hvorum heiminum en ég fann alltaf fyrir nærveru hans. Við borðuðum saman morgunmat og kvöldmat og stundum kom hann heim í hádeginu til þess að borða með okkur. Hann var ekkert að leggjast á alla fjóra til þess að láta einhverja plastkalla hreyfa sig með mér, það var mamma sem var meira í því. Hann studdi mig með því að sjá til þess að ég hefði þá hluti sem mig vantaði til að stunda þau áhugamál sem ég var með á hverjum tíma. Hann hefði aldrei farið með mér á BMX-hjóli í klettana neðan við Sjómannaskólann til þess að hjóla í drullupollum eða renna sér á hjólabretti niður brekkur, þó tilhugsunin um það væri mjög spaugileg.

Þegar ég var 12 ára þá lét hann setja netgirðingu ofan á bílskúrana sem voru við hliðina á húsinu okkar í Skipholti og hengdi upp körfu á húsvegginn svo við bræðurnir gætum spilað körfubolta með vinum okkar. Kannski hefur hann farið út á völlinn í eitt skipti þegar við vorum komnir inn og prófað svona einu sinni að skjóta á körfuna og svo hugsað með sér: Nei þetta er ekki fyrir mig, best að fara inn og hlusta á fréttirnar.

Pabbi hafði rosalega gaman að öllum fréttum. Hann hlustaði á allar fréttir í útvarpinu og horfði á allar fréttir í sjónvarpinu. Þegar Stöð2 kom, þá horfði hann fyrst á fréttirnar á Stöð2 sem byrjuðu klukkan 19:19 og svo á fréttirnar í Ríkissjónvarpinu sem byrjuðu klukkan 20:00. Hann átti sinn uppáhalds stól í stofunni og sat alltaf í honum þegar hann horfði á fréttirnar. Þegar ég var að læra að lesa þá sat ég í fanginu á honum í þessum stól þar sem hann lét mig lesa upp úr lestrarbók sem hann hafði búið til sjálfur. Þessi bók var svolítið eins og Gagn og gaman og hún var líka myndskeytt af honum. Ég á þessa bók ennþá og held mikið upp á hana.

Þegar ég byrjaði að fá heimavinnu í grunnskóla þá hjálpaði hann mér alltaf með íslensku og ensku og fór yfir það sem ég hafði skrifað. Hann las líka yfir ritgerðir sem ég skrifaði þegar ég var kominn í menntaskóla. Pabbi var vissulega kennari allan sinn starfsferil og því var það auðvelt fyrir hann að styðja mig í heimanáminu.

Þó pabbi hafi ekki tekið þátt í því sem ég var að fást við þá fannst mér það alltaf eðlilegt og ég skrifa þetta ekki út af einhverri óánægju með hann. Þegar hann eignaðist mig með mömmu þá var hann búinn að eiga tvö börn með fyrri konunni sinni og hefur kannski verið búinn að ganga í gegnum gú gú ga ga-skeiðið með þeim og verið sáttur við að leyfa mömmu að upplifa það sjálfa. Í minningunni þá var hann alltaf til staðar og ég fékk alla þá hjálp og athygli sem ég þurfti að fá frá honum. Það er ómetanlegt að hafa átt pabba eins og hann.

Ein af uppeldisaðferðunum sem pabbi fór eftir var að leyfa okkur strákunum að gera það sem við höfðum áhuga á hverju sinni, upp að ákveðnu marki því vissulega gátu áhugamál kostað sitt. Hann gerði okkur þá kleift að finna okkur í lífinu þar sem við gátum prófað eitt og annað sem við fengum áhuga á. Eftir að ég varð sjálfur pabbi þá hef ég reynt að fylgja þessari uppeldisaðferð með mínum börnum og held að þau séu að njóta góðs af núna.

Eftir að pabbi og mamma skildu þegar ég var tvítugur þá var pabbi á leigumarkaðnum. Við Siggi vorum hjá pabba og Kormákur hjá mömmu. Þessi breyting á fjölskylduhögunum var vissulega erfið fyrir okkur öll en sem betur fer þá komu mamma og pabbi alltaf vel fram við hvort annað og voru góðir vinir eftir skilnað. Þarna sýndu þau hvað þau voru þroskaðar manneskjur og það gerði allt miklu auðveldara fyrir okkur bræðurna.

Þegar ég var 22 ára þá fór ég til Bandaríkjanna í háskólanám sem pabbi var mikill áhrifamaður um. Hann var þá að leigja og ég kom heim til Íslands í fríum og gisti þá hjá honum. Eins og margir þekkja sem eru á leigumarkaði þá getur það verið mjög óöruggt hversu lengi hægt er að vera í sama húsinu. Pabbi var á þessum árum alltaf að missa húsnæðið og þá þurfti að pakka niður öllum bókunum hans og setja svo aftur upp í nýrri íbúð sem var heilmikil vinna. Ég tók þátt í einhverjum af þessum flutningum en ekki hefur þetta verið auðvelt fyrir pabba. Hann kvartaði samt aldrei við mig út af þessu ástandi. Hann tók bara á móti mér með bros á vör þegar ég kom til hans og sýndi mér væntumþykju. Hann hafði seiglu sem hjálpaði honum þegar á móti blés. Í 10 ár var hann á leigumarkaðnum en þá keyptum við saman hús í Stykkishólmi þar sem honum leið mjög vel. Það var ekki bara út af því að hann var kominn út af leigumarkaðnum heldur líka út af því að pabbi fæddist í Stykkishólmi og bjó þar fyrstu ár ævi sinnar. Hann þekkti því staðinn vel og átti kunningja þar.

Ég ílengdist erlendis en í hvert skipti sem ég kom til Íslands þá fór ég alltaf að hitta pabba í Stykkishólmi. Honum þótti fiskur mjög góður og þá kippti ég með rauðsprettu eða lúðu úr fiskbúð í Reykjavík og kom með til hans. Hann eldaði svo matinn fyrir okkur því hann var prýðilegur kokkur.

Svo settumst við niður í stofunni og ræddum eitt og annað og hann spurði mig um hvað hefði á daga mína drifið. Þegar kom að þjóðfélagsmálum þá vorum við ekkert oft á sama máli og jafnvel með mjög ólíkar skoðanir. Það breytti þó engu um kærleikann sem ríkti á milli okkar því við gátum verið ósammála en samt verið vinir.

Þótt þessu tímabili sé nú lokið í lífi mínu þá er ég með fjársjóð í minningum af pabba sem geta lyft mér upp og ég get hlýjað mér við. Ég tek það sem pabbi gaf mér inn í þá vegferð sem ég er á sjálfur, sem er að vera pabbi barnanna minna og ég veit að þau eiga eftir að hafa gott af.

Logi Bragason.