Meðferð kæru Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi til landskjörstjórnar hefur engin áhrif á stjórnarmyndun, hver svo sem niðurstaðan reynist.
Flokkurinn lagði sem kunnugt er fram kæru til landskjörstjórnar vegna talningar atkvæða í kjördæminu og synjunar yfirkjörstjórnar á endurtalningu atkvæða eða annarri ráðstöfun til að fyrirbyggja villur í niðurstöðum.
Það kemur í hlut starfandi forseta Alþingis að skipa undirbúningskjörbréfanefnd, sem fær slíka kæru til athugunar, getur mælt fyrir um endurtalningu og gerir tillögu um framhaldið til hinnar eiginlegu kjörbréfanefndar, sem kjörin er á fyrsta fundi Alþingis.
Það breytir þó engu um stjórnarmyndun og myndi ekki fresta stjórnarskiptum. Jafnvel þótt hlutföll á þingi breyttust verulega við endurtalningu sæti sú stjórn áfram, en aldrei lengur en Alþingi leyfði, sem samþykkt gæti vantraust á fyrsta þingfundi.