Sveinn Guðmundsson fæddist 1. júní 1937. Hann lést 21. ágúst 2024.
Útförin hefur farið fram í kyrrþey.
Ég var sex ára og hann sjö þegar við kynntumst. Næsta afmæli var afmælið hans. Hann varð átta ára, en þá var ég enn sex ára.
„Nú er ég tveimur árum eldri en þú,“ sagði hann. Ég var þessari fullyrðingu ósammála, en mig brast rök til að hrekja hana.
Seinna þetta sama sumar varð ég sjö ára. Aldursmunardeilur runnu út í sandinn.
Við bjuggum hvor á sínum hól og hólarnir voru eyjar. Það voru fleiri krakkar og fleiri hólar. Við Svenni prófuðum samvinnu og bjuggum í tvíbýli. En það voru fleiri strákar og okkar hóll varð fjórbýli með tilheyrandi girðingum úr staurum og garni.
...