Í alþjóðapólitík er ekki litið lengur á norðurslóðir sem tákn um samstarf og frið; þær eru hluti af spennuástandi.
Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði, hefur gefið út nýja bók um Ísland og norðurslóðastefnu landsins.
Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði, hefur gefið út nýja bók um Ísland og norðurslóðastefnu landsins. — Morgunblaðið/Karítas

Ég er einkum að skoða hvernig fortíðin speglast í samtímanum,“ segir Valur um bókina. „Ég fjalla um hlutverk norðurslóða í íslenskum utanríkis- og öryggismálum og set það í alþjóðlegt samhengi á tímabilinu frá lokum kalda stríðsins til samtímans.“ Á þeim tíma hafa margvíslegar breytingar orðið bæði innanlands og í alþjóðamálum þar sem spenna hefur aukist á undanförnum áratug. Hann segir að norðurslóðir hafi ekki verið forgangsmál í íslenskum utanríkismálum lengi vel.

„Á kaldastríðstímanum snerist utanríkisstefnan aðallega um samskipti Íslands við Bandaríkin og herstöðina og síðar um Evrópusamrunann, þó að minnst hafi verið á norðurslóðir vegna hernaðarumsvifa. Norðurslóðir komust því í raun ekki í umræðuna hér á landi að ráði fyrr en á síðari hluta fyrsta áratugar þessarar aldar, þótt fjallað hafi verið um svæðið áður í tengslum við loftslagsbreytingar.

...