Miðaldasönghópurinn Voces Thules flytur valda þætti úr Þorlákstíðum í Dómkirkju Krists konungs í Landakoti á Þorláksmessu kl. 17. „Tíðasöngur þessi er aldagamall einradda söngur móðurkirkjunnar, svokallaður gregorsöngur, og ætlaður til íhugunar og tilbeiðslu. Tilvalið er að setjast niður í jólaundirbúningnum, stöðva tímann um stund og leyfa tónlist tileinkaðri þjóðardýrlingi Íslendinga að gæla við hlustir og huga,“ segir í tilkynningu. Séra Jakob Rolland, prestur kaþólsku kirkjunnar, mun taka þátt í athöfninni sem tekur um eina klukkustund. Aðgangur er ókeypis.