Leikmenn í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu verða með takkaskóna stífreimaða á sig um hátíðirnar, eins og venjulega. Svo ört verður raunar leikið að varla tekur því að taka þá af sér.
Um helgina fer fram heil umferð, þar sem hæst ber viðureign toppliðs Liverpool og Tottenham Hotspur í Lundúnum í dag, sunnudag. Önnur umferð fer fram á annan í jólum og 27. desember. Þá fær Chelsea, sem vermir annað sætið, Fulham í heimsókn en þeir svarthvítu náðu óvænt í stig gegn Liverpool á Anfield um daginn. Þriðja umferðin hefst svo strax 29. desember en þá fer Liverpool í heimsókn til West Ham United og daginn eftir glíma m.a. Manchester United og Newcastle United. Menn kasta mæðinni á gamlársdag en strax á nýársdag byrjar ballið á ný, þegar Brentford fær Arsenal í heimsókn. Fjórða umferðin á tveimur vikum fer svo fram fyrstu helgina í janúar.