Tveir viðburðir verða í Hannesarholti um helgina. Svavar Knútur heldur Vetrarsólstöðutónleika í dag, laugardaginn 21. desember, kl. 16 og Níels Thibaud Girerd mun sýna Jólasögu eftir Dickens í Girerd-leikhúsinu á morgun, sunnudag, kl. 13.
„Eins og Svavars er von og vísa verða tónleikarnir með einföldu sniði, einungis söngvaskáldið og kassagítarinn, ukuleleið og mögulega píanó til selskapar. Ekkert fluss, gervisnjór, ljósasjó, sérstakir gestir, stórsveit eða flottheit önnur en þau sem viðstaddir taka með sér,“ segir um tónleikana. Miðasala fer fram á tix.is.
Girerd leikhúsið, sem Níels Thibaud Girerd stofnaði 10 ára gamall árið 2003, mun flytja Jólasögu Charles Dickens í leikgerð Níels. Listamenn leikhússins eru Playmo-kallar og hafa verið frá stofnun, segir í tilkynningu. „Sannkallað jólaævintýri sem lætur engan ósnortinn.“ Aðgangur er ókeypis en sýningin tekur 18 mínútur.