Mörgum spurningum er ósvarað um það hvert nýir ráðamenn Sýrlands stefna með landið. Ahmed al-Sharaa, sá sem leitt hefur uppreisnarhópinn Hayat Tahrir al-Sham eða HTS og átti stærstan þátt í falli Assad-stjórnarinnar, segir að Sýrland verði ekki eins og Afganistan. Með því talar hann til Vesturlanda sem hafa beitt stjórnvöld í Afganistan þvingunum, enda ríkir þar harðstjórn, ekki eingöngu en einkum gagnvart konum. Þar sæta þær sömu meðferð og þær hafa víða þurft að gera þar sem stjórnvöld segjast styðjast við íslam.
Ýmislegt bendir til að Sharaa, þrátt fyrir vafasama fortíð hans og HTS, vilji raunverulega að Sýrland þróist með öðrum hætti en Afganistan, en hann hefur þó fjarri því verið skýr um það hvernig ástandið í Sýrlandi verði undir stjórn HTS og hvað taki við eða hvenær. Þetta er að ýmsu leyti skiljanlegt, ástandið er flókið, en þýðir um leið að Vesturlönd þurfa að fara með gát
...