Tom Cruise
Tom Cruise

Leikarinn Tom Cruise hlaut á dögunum æðstu orðu sem bandaríski sjóherinn veitir almennum borgurum fyrir „framúrskarandi framlag“ til hersins og er þá verið að vísa til þeirra hlutverka sem hann hefur tekið að sér á hvíta tjaldinu. BBC greinir frá.

Cruise var í aðalhlutverki í kvikmyndinni Top Gun árið 1986 og mun velgengni þeirrar kvikmyndar hafa stuðlað að aukinni skráningu í herinn. Orðan sem Cruise tók við nefnist „The Distinguished Public Service Award“ en Cruise mun hafa þakkað fyrir þessa „stórkostlegu viðurkenningu“. Jafnframt er haft eftir honum að hann dáist að öllum þeim sem sinni herskyldu. Sjóherinn þakkaði leikaranum fyrir að hafa vakið athygli almennings á því þrautþjálfaða starfsfólki sem er í hernum og hve miklar fórnir það færir meðan það gegnir herskyldu.