Allt konfektið er handgert og fimm mismunandi tegundir. Hver moli er með þrenns konar fyllingu og hugsunin er að hann sé eins og einn biti af eftirrétti.
Handgert konfekt í öllum regnbogans litum setur Karen Eva Harðardóttir í litlar fallegar öskjur sem hún svo selur fyrir jólin. Karen býr á Selfossi þar sem hún starfar sem bakari hjá Almari bakara, en útibúin hans eru í Hveragerði, á Selfossi og á Hellu. Karen unir sér vel í vinnunni þrátt fyrir að þurfa að vinna á nóttunni, en hún er með langa reynslu að baki, bæði sem bakari og sem eftirréttameistari Apóteksins í Reykjavík. Konfektgerðin fer fram í frítímanum og er ljóst á molunum að hér er listamaður á ferð.
Allt konfekt handgert
Karen byrjar að vinna annaðhvort klukkan tvö eða fimm á næturnar en auk þess er hún þriggja barna móðir. Ljóst er að það er nóg að gera hjá Karen en hún vílar það ekki fyrir sér.
„Ég á þrjú börn, karl og hund. Allur pakkinn.
...