Íslandsmeistarar Vals unnu kærkominn sigur á Tindastóli, 89:80, í síðasta leik 11. umferðar úrvalsdeildar karla í körfuknattleik á Hlíðarenda í gærkvöldi. Valur fór með sigrinum upp úr fallsæti og er nú í tíunda sæti með átta stig eins og Álftanes sæti neðar og ÍR og Höttur í sætunum fyrir ofan. Tindastóll heldur kyrru fyrir í öðru sæti með 16 stig, fjórum á eftir toppliði Stjörnunnar. Deildin er nú komin í jólafrí og hefst aftur eftir áramót.
Valur var með 13 stiga forystu, 49:36, að loknum fyrri hálfleik og hóf síðari hálfleikinn á því að ná 23 stiga forystu, 62:39. Tindastóll náði nokkrum sinnum að laga stöðuna en komst ekki nær Valsmönnum en níu stigum, sem var munurinn þegar upp var staðið.
Taiwo Badmus var stigahæstur í leiknum með 24 stig fyrir Val.
Sigtryggur Arnar Björnsson var stigahæstur hjá Tindastóli með 23 stig og tvo stolna bolta.