Fyrsta stjórnin íslenska sem gaf sjálfri sér nafn var Stjórn hinna vinnandi stétta, sem mynduð var 1934, en þrátt fyrir nafnið hafði hún að baki sér minnihluta kjósenda, 43,6%. Líklega hefði hún frekar átt að heita Stjórn hinna talandi stétta. Önnur stjórn sem hlaut sérstakt nafn var Þjóðstjórnin, sem mynduð var 1939. Hún var almennt talin ill nauðsyn, enda sagði Árni Pálsson prófessor: „Það vilja allir hafa hana, en enginn kannast við hana.“ Þá var ráðherrum fjölgað úr þremur í fimm, og Jón Helgason prófessor orti:

Eitt er þó nálega álíka veglegt hjá báðum,

því örlögin veittu oss í smæð vorri dýrmætan frama:

Ráðherratalan á Íslandi og Englandi er bráðum

orðin hin sama.

Sósíalistaflokkurinn var þó utan stjórnar, svo að hún var ekki raunveruleg þjóðstjórn. En vegna náinna

...