Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir, Unnar Hermannsson og Halldór Halldórsson
Á síðustu vikum hafa Vestfirðingar vakið athygli á nauðsyn samgöngubóta í fjórðungnum undir merkjum „Vestfjarðalínu“. Þetta ákall um sterkari samgönguinnviði Vestfjarða vísar til öflugra heilsárstenginga innan atvinnusvæða, öruggari samgangna milli svæða og að leiðin frá höfuðborgarsvæðinu verði að mestu leyti láglendisvegur.
Markmiðið hefur verið að blása ráðamönnum í brjóst kjarki til aukinnar uppbyggingar samgönguinnviða. Settur hefur verið upp sérstakur upplýsingavefur um „Vestfjarðalínuna“ þar sem nauðsynleg innviðaverkefni eru skilgreind. Þau snúa að jarðgangagerð og umfangsmiklum og mikilvægum vegabótum sem stytta ferðatíma, auka umferðaröryggi og draga úr viðhaldsþörf.