Ný ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur kemur saman í dag til síns fyrsta fundar, eftir að hafa tekið við völdum um helgina af starfsstjórn Bjarna Benediktssonar.
Ríkisstjórnin kynnti sín helstu áherslumál sl. laugardag og að því loknu fóru fram ríkisráðsfundir á Bessastöðum með Höllu Tómasdóttur forseta Íslands. Fyrst fundaði hún með starfsstjórninni og síðan komu að Bessastöðum 11 nýir ráðherrar í ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins. Fjórir ráðherrar koma úr hvorum flokki, Samfylkingu og Viðreisn, og Flokkur fólksins er með þrjá ráðherra.
Forseti Alþingis verður Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður Samfylkingar. Einn ráðherra er utan þings, Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, varaformaður Viðreisnar. Kristrún er yngsti forsætisráðherra Íslandssögunnar, 36 ára að aldri.
...