Fjölskyldufyrirtæki sem rekur þrjú hótel undir Eyjafjöllum í Rangárvallasýslu, hefur keypt hús Skógaskóla af íslenska ríkinu og áformar að hefja þar rekstur á gistiþjónustu næsta vor.
Einar Þór Jóhannsson, einn eigenda félagsins, segir að áformað sé að reka gistingu með morgunmat í Skógaskóla. Hann segir að lagfæra þurfi húsið en það sé í þokkalegu standi, þar sé engan raka að finna og gluggar séu meira og minna heilir þótt skipta þurfi um gler. Kaupverð hússins var 300 milljónir króna.
Félagið rekur Hótel Önnu á jörðinni Moldnúpi undir Eyjafjöllum og tvö hótel á Skógum, Hótel Skógá og Hótel Skógafoss. Einar segir að reksturinn gangi mjög vel. „Við kvörtum ekkert,“ segir hann.
Skógaskóli var tekinn í notkun árið 1949 en skólahald var aflagt 1999 og húsið hefur að mestu staðið autt síðan. Þó hefur verið rekið þar sumarhótel með hléum frá árinu 1963, lengst af undir merkjum Hótels Eddu. Síðustu ár hefur Skógasafn annast bygginguna samkvæmt samningi
...