Nýir ráðherrar tóku glaðbeittir við ráðuneytum sínum um helgina og fráfarandi ráðherrar afhentu lykla – eða ígildi þeirra – með bros á vör og góðum óskum. Í þessum einföldu athöfnum, sem sumir segja að séu aðeins framkvæmdar myndanna vegna, eru friðsamleg valdaskipti staðfest og sá mikilvægi og sameiginlegi skilningur að lýðræðið virki og eigi að virka hér á landi, hvernig sem kosningar fara.
Íslendingar eru góðu vanir í þessum efnum og þykir ef til vill fjarstæðukennt að tala um friðsamleg valdaskipti. Menn þurfa þó ekki að líta ýkja langt út fyrir landsteinana til að sjá að slíkt er ekki sjálfsagt og að þessa grunnstoð samfélagsins þarf að styðja við og verja. Rétt eins og varnir og öryggi landsins, inn á við og út á við, réttarríkið og fleira sem við teljum sjálfsagt en er það í raun ekki.
Þó að Íslendingar segðu án efa allir sem einn að þessar grunnstoðir séu traustar hér á landi eru þær líka viðkvæmar. Það sást til að mynda ágætlega þegar ólmast
...