xxxxxxx

Jólin eru ævaforn, raunar eldri en kristni, en þau voru sólstöðuhátíð til þess að fagna því að dag tók að lengja á ný, til marks um að myrkrinu slotaði og endurfæðing lífríkisins á næsta leiti.

Um uppruna orðsins jól er lítið vitað, en ein tilgátan er sú að jól séu einfaldlega hjól; hjól lífsins, sem snýst hring eftir hring, rétt eins og jörð um sólu, sem aftur knýr hringrás náttúrunnar. Það var því ekki endilega út í bláinn að syngja um Jólahjól.

Inntak jólanna breyttist með kristninni, en þó ekki að öllu leyti. Jólin eru fæðingarhátíð frelsarans Jesú Krists og ár hvert fögnum við fæðingu Krists, sem er nýfæddur hver jól. Jesúbarnið er eilíf táknmynd kraftaverks lífsins og gjafmildi Guðs, sem gaf okkur líf og allan heiminn til þess að njóta og dást að, gaf okkur son sinn Jesú Krist og boðskap hans. Það er jólagjöfin.

...