Veitur hafa biðlað til almennings að halda hitanum inni, í ljósi kuldakasts í veðurkortunum. Silja Ingólfsdóttir upplýsingafulltrúi Veitna segir að staðan sé tekin á hverjum degi að vana og Veitur hafi haft samband við samstarfsfólk sitt í þeim tilgangi að undirbúa til að mynda starfsfólk sundlauga, ef koma skyldi til lokunar. Það sé þó ekki gert nema í ýtrustu neyð, ef kaldir dagar verða margir í röð.
Íbúar í sveitarfélaginu Árborg eru hvattir til þess að fara sparlega með heita vatnið af sömu ástæðu. Er þetta gert til þess að draga úr líkum á þjónustuskerðingu, að því er fram kemur í tilkynningu frá Selfossveitum. „Fólk getur sparað heitt vatn og þar með kyndikostnað sinn með því að gæta að því að gluggar séu ekki opnir og útidyr ekki látnar standa opnar lengur en þörf er á,“ segir þar.