Júní Gríðarleg hitabylgja fór eins og eldur í sinu um Indland og önnur Asíuríki frá og með apríl en náði hámarki í júní með þeim afleiðingum að yfir hundrað manns biðu bana á Indlandi frá 1. mars til 18. júní. Skortur var á vatni og í Nýju-Delí var fólki skammtað vatn úr tankbíl. Grunur leikur á að yfir 40 þúsund manns hafi fengið sólsting af þessum sökum og dánartölur því mögulega gróflega vanmetnar. Þá er talið að gríðarlegur hiti hafi orðið meira en 1.300 manns að aldurtila í júní, þegar múslimar fara í pílagrímaferð til hinnar helgu borgar Mekka í Sádi-Arabíu. Vísindamenn telja loftslagsbreytingar líklegustu skýringuna á því að hitamet falla nú reglulega.