Vísindamenn greindu frá því að þeir hefðu fylgst með því þegar órangútan læknaði sjálfan sig með því að rjóða laufum læknisjurtar á sár á andliti sínu í vernduðum skógi á Indónesíu. Rakus er karldýr og er talið að hann sé 35 ára gamall. Hann lifir í Gunung Leuser-þjóðgarðinum á Súmötru og hafa vísindamenn fylgst með lifnaðarháttum hans um árabil. Hann notaði tuggin lauf jurtarinnar akar kuning til að bera á sárið. Plantan er notuð víða um Suðaustur-Asíu við ýmsum kvillum, þar á meðal malaríu.