Gersemi Viðhöfn var í nóvember þegar dýrgripirnir Margrétar saga, Flateyjarbók og Konungsbók eddukvæða voru fluttir úr Árnagarði í Reykjavík í Eddu – hús íslenskunnar, þar sem sýning á þeim og menningarheimi fornritanna var síðan opnuð. Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra og Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunar voru þar í aðalhlutverki við flutningana sem nutu lögregluverndar eins og eðlilegt er þegar menningarlegur gullforði íslensku þjóðarinnar er færður á milli staða.
Framkvæmdir Nýr Landspítali er óðum að rísa af grunni við Hringbraut og miðaði framkvæmdum vel á árinu sem er að líða, þótt enn sé mikið verk að vinna. Stefnt er að því að ljúka byggingarframkvæmdum í lok árs 2027. Þá verða samt eftir stórir áfangar eins og að innrétta og tækjavæða byggingarnar. Eiginleg verklok eru áætluð árið 2029 og verður þá nýtt þjóðarsjúkrahús að fullu komið í notkun.
...