Andalúsía
Suður af Extremadura er hin fornfræga Andalúsía. Á tímum Rómverja nefndist þetta hérað Baetica. En á 5. öld réðust Vandalar inn í héraðið og eftir það bar það nafn þeirra, Vandalúsía sem síðar varð Andalúsía. Í kjölfarið á Vandölum komu Vestgotar, en þeir urðu á endanum að lúta í lægra haldi fyrir Márum. Alhambrahöllin í Granada er ein af fegurstu menjum um veru Mára á Íberíuskaganum
Andalúsía er í huga sumra „spánskasta“ hérað Spánar. Hérað þetta er annálað fyrir gott og fjölbreytilegt hráefni til matargerðar, og mikið úrval er þar af gómsætum og þjóðlegum réttum. Hinir sérdeilis vinsælu tapas-smáréttir eru, að sumra sögn, upprunnir í Andalúsíu. Heiti tapassmárétta mun vera dregið af spænska orðinu tapar, sem merkir að hylja (e.t.v. skylt orðinu toppur). Ein sagan um uppruna tapasrétta er að um hafi verið að ræða brauð-
...