Andlát Maciejs Andrzejs Bieds, 10 ára Árbæings, sem gekk í Árbæjarskóla og æfði fótbolta með Fylki, hefur haft mikil áhrif á samfélagið í hverfinu. Bæna- og kyrrðarstund var haldin í Árbæjarkirkju á sunnudag þar sem um 200 manns komu saman. „Við vorum með kyrrðar- og tónlistarbænastund með hugleiðingu og spjalli um lífið og tilveruna,“ segir Þór Hauksson sóknarprestur. Maciej varð fyrir bíl í Nola á Ítalíu á annan í jólum þar sem hann var ásamt pólskri fjölskyldu sinni. Drengurinn var úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi.