Formenn stjórnmálaflokkanna sem sæti eiga á Alþingi rituðu áramótagreinar í Morgunblaðið á gamlársdag, venju samkvæmt. Þær voru fróðleg lesning og sýna margvíslegar ólíkar áherslur en um leið að öllum er þessum forystumönnum í mun að þjóðinni vegni vel, þó að leiðirnar sem þeir vilja fara séu misvel til þess fallnar að svo megi verða.
Að þessu sinni eru þrír flokkar á þingi í ríkisstjórn og aðrir þrír utan stjórnar, en þar hafa orðið alger umskipti sem kunnugt er hjá fimm þessara flokka. Það hlýtur í sjálfu sér að kalla á töluverðar breytingar þó að enn sé óljóst hversu miklar þær verða.
Formenn ríkisstjórnarflokkanna hafa talað um að stefnuyfirlýsing stjórnarinnar sé skýr, en því miður vantar töluvert upp á að svo sé og svör sem gefin hafa verið í viðtölum eða umræðuþáttum eru síst til þess fallin að skýra stefnuna. Það er því mikið verk að vinna fyrir fjölmiðla, en ekki síður stjórnarandstöðuna á þingi, að leita svara við því hvert förinni er heitið.
...