Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Allur fiskiskipaflotinn var í höfn um áramótin og á bryggjurúnti í höfuðborginni í gær, á nýársdagsmorgun, mátti sjá ljósum skreytta togara við kaja. Allt mun þó fljótt falla í skorður; skipin áttu sum hver að fara út strax í nótt en önnur í dag. Með því er kapp lagt á að koma sem allra fyrst með hráefni í fiskvinnsluhúsin, en verð fyrir ferskan fisk er yfirleitt gott í byrjun hvers árs.
Norðan frá Akureyri er svipaða sögu að segja. Öll bolfiskveiðiskip Samherja, fimm að tölu, héldu til veiða nú í nótt eða fljótlega eftir að 2. janúar gekk í garð. Togararnir sjá vinnsluhúsum félagsins á Akureyri og Dalvík fyrir hráefni, en þar starfa á þriðja hundrað manns. Svipaður fjöldi sjómanna er á skipum Samherja, enda tvær áhafnir á hverju skipi.
Í gær mátti sjá á vefnum marinetraffic.com að nokkrir smábátakarlar á Snæfellsnesi voru á sjó og hvalaskoðunarskip
...