Guðmundur Óskar Reynisson í fiskversluninni Hafberg segir hrognin snemma á ferðinni í ár. Spurður að því hvort þau njóti mikilla vinsælda svarar hann að það sé alltaf ákveðinn hópur fólks sem sé ólmur í hrogn og lifur.
„Þetta byrjar venjulega í janúar og er alveg fram í febrúar og mars,“ segir hann en hrygningartímabilið sé þegar hafið. Fiskurinn veiðist stútfullur af hrognum og þá hirði slægjararnir þau og selji á markaði. Aðspurður segir hann algengast að hrogn og lifur séu soðin með kartöflum sem meðlæti. „Þetta er eins íslenskt og það getur verið,“ segir hann.
Guðmundur segir söluna rétt að byrja en hann býst við að fleiri sæki í hrognin þegar líða tekur á mánuðinn.