Argentínska leikkonan Olivia Hussey er látin, 73 ára að aldri. Hussey öðlaðist heimsfrægð á táningsaldri þegar hún lék í kvikmynd Francos Zeffirelli, Rómeó og Júlíu, árið 1968 sem byggð var á sígildu og samnefndu verki Williams Shakespeare. Fyrir leik sinn í myndinni hlaut Hussey Golden Globe-verðlaunin sem besta nýja leikkonan en nokkrum áratugum síðar höfðaði hún mál gegn framleiðanda myndarinnar, Paramount Pictures, fyrir að þvinga hana til að leika í nektarsenu, aðeins 15 ára að aldri. Með hlutverk Rómeós fór Leonard Whiting en hann var 16 ára.
Hussey fæddist í Búenos Aíres í Argentínu en ólst upp í Lundúnum þar sem hún nam leiklist. Af fleiri eftirminnilegum hlutverkum sem hún fór með á ferli sínum má nefna Maríu mey sem hún lék í sjónvarpsþáttaröðinni Jesus of Nazareth.