„Einfaldleikinn í fisfluginu er það sem gerir það svo sérstakt,“ segir Jónas Sverrisson, formaður Fisfélagsins, alltaf kallaður forsetinn af félagsmönnum. „Þetta er flug sem er nær upphafinu. Það eru bara tvö sæti í hverri vél og þetta er eins einfalt og hægt er að hafa það og vélarnar léttar. Það er mikið frelsi og við vorum með alveg frábært veður núna,“ segir Jónas, en félagsmenn hittust sem fyrr á gamlársdag á Hólmsheiði og viðruðu vélarnar.
Fisfélag Reykjavíkur er nú fjölmennasti flugklúbbur landsins, með um 400 meðlimi. Í félaginu eru einnig áhugamenn um svifvængi og svifdreka. Félagið var stofnað 1978 og hét þá Svifdrekafélag Reykjavíkur, sem var breytt árið 2002 í Fisfélagið. „Við hittumst fyrst alltaf undir Úlfarsfelli á gamlársdag og vorum með brennu og veitingar. Þetta var hugsað sem skemmtun fyrir börn félagsmanna. Við höfum haldið í þennan sið eftir
...