Vatnshæð hafði aldrei mælst meiri á vatnshæðarmæli Veðurstofunnar á stíflu Flóaáveitunnar nærri Brúnastöðum í Flóahreppi en á fimmtudagskvöld. Vatn byrjaði að flæða upp úr árfarvegi Hvítár síðdegis á fimmtudag. Jókst flæðið mikið fram á gærdaginn áður en það varð stöðugt síðdegis. Vatn rennur bæði meðfram og yfir inntak Flóaáveituskurðarins. Hluti vatnsins rennur yfir Brúnastaðaflatir. Veðurstofan fylgist með vatnshæðarmæli.
„Það eina sem við getum séð er ef vatnshæðin eykst eða minnkar eða dettur alveg út. Ef hún dettur alveg út þá hefur líklega flætt yfir mælinn og áin rifið hann með sér,“ segir Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni. anton@mbl.is