Jörð hefur haldið áfram að skjálfa við Grjótárvatn í Ljósufjallakerfinu síðustu tvær vikur og jarðskjálftar verið daglegt brauð. Á fimmtudag riðu yfir tæplega 20 skjálftar á svæðinu og voru þeir stærstu 2 að stærð. Í eitt skipti kom óróapúls fram á skjálftamæli í Hítardal og varði hann í um 40 mínútur.
Á vef Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands er bent á að slíkur óróapúls (eða óróahviða) sé talinn skýrt merki um að kvika sé að koma sér fyrir í jarðskorpunni á töluverðu dýpi. Skjálftarnir sem voru um svipað leyti og óróapúlsinn mældist og báðir um 2 að stærð, voru á 21 og 16 km dýpi. Bent er á að álíka órói hafi komið fram í nokkur skipti í desember, en að hann hafi þá aldrei varað lengur en í um 15 mínútur.
Mbl.is ræddi við Ingibjörgu Andreu Bergþórsdóttur, náttúruvársérfræðing á Veðurstofu Íslands, í fyrradag. Sagði hún þá að skjálftar hefðu meira og minna verið á þessu svæði á hverjum degi síðustu tvær
...