Tíminn líður ógnarhratt. Bréfritari náði sér í bók í skápnum og á daginn kom að sú varð bók Tómasar Guðmundssonar „Við sundin blá“, sem kom út í Reykjavík í apríl 1925, fyrir nærri réttri öld. Útgefendur eru sagðir vera: „Nokkrir stúdentar.“ Sérstaklega er tekið fram að upplag bókarinnar hafi verið 600 eintök. Bókin, sem geymdi 20 ljóð á sínum 40 síðum, var ekki bundin rækilega inn en þó að henni hafi verið flett oft og iðulega hefur hún sem betur fer haldið vel sínu, enda notið verðskuldaðrar virðingar. Bréfritari hefur löngum haft dálæti á þeim ljóðum sem þarna eru geymd en stendur sig þó iðulega að því að geta ekki með góðu móti gert upp á milli ljóða skáldsins góða, enda myndi mat viðkomandi af því tagi skipta litlu eða næstum engu fyrir allan fjöldann sem er fullfær um að ákvarða slíkt og þvílíkt hjálparlaust fyrir sig. Öðru máli gegnir um bækur sem lúta allt öðrum lögmálum en ljóðabækurnar, sem iðulega
...